Hvað kostar að hlaða rafmagnsbíl ?

Það er áhugavert að skoða hvað kostar að hlaða rafmagnsbíl. Þegar farið er í að skoða rafbílakaup þá er gott að hafa hugmynd um kostnaðinn við að hlaða rafbílinn, rétt eins og við höfum hugmynd um hvað við erum að greiða fyrir olíu á bensín- og dísilbíla. En hvernig getum við komist að því hvað ræður kostnaðinum við að hlaða rafbílinn ?

Hvað þurfum við að vita áður en við áttum okkur á kostnaði ?

  1. Hversu stórt er batteríið í rafbílnum (rýmd) í kílówattstundum ?

    • Tökum dæmi um Audi e-Tron 50 quattro sem hefur 71 kWs stórt batterí. Sem segir okkur hvers stór rafhlaðan er, rétt eins og hvað tankur bensínbíla tekur marga lítra. Hversu mörgum kílówattstundum (kWs) bifreiðin eyðir á hundraði (per 100 km) er svo mælieining á orkunotkun rafbíls rétt eins og þegar við tölum um að bensínbíll eyði x lítrum á hundraði.

  2. Hvað kostar kílówattstundin eða tímagjaldið ?

    • Heimahleðsla - Á heimasíðu Aurbjargar er hægt að gera verðsamanburð á raforkuverði, þar er Íslensk Orkumiðlun t.d með lægsta verðið á kWs, 7,15 kr. - m. vsk (22.01.2020) svo bætist við dreifingagjald, gefum okkur 7 kr. - m. vsk þar, samtals 14,15 kr. -. Sem þýðir að ef ég væri að full hlaða rafbílinn frá 0-71 kWs þá væri kostnaðurinn 71 * 14,15 kr.- m. vsk eða 1000 kr.-. Þessi kostnaður fyrir orku og dreifingu er svo breytilegur eftir búsetu, þ.e dreifbýli, þéttbýli og raforkusala. Hraðinn fer svo algjörlega eftir því hvort og hvernig hleðslustöð þú ert með heima. Það er mikilvægt að huga vel að uppsetningu við heimahleðslu til að gæta öryggis og hleðslugæða til lengri tíma, þar kemur fræðslubæklingur Mannvirkjastofnunar að góðum notum. Samkvæmt EV Database væri drægnin á þessum tiltekna Audi e-Tron miða við kalt veður í borgarakstri um 290 km en þetta er aðeins viðmið. Drægnin (eins og bensíneyðsla) fer eftir hraða, aksturslagi, veðurfari og hvort við séum í langkeyrslu (hraðbraut t.d) eða borgarakstri. Ólíkt bensínbílum eru rafbílar oft hagkvæmari í eyðslu í innanbæjar akstri þar sem orkugjafarnir virka á svo ólíka vegu. Þetta fer þó einnig eftir aðstæðum, aksturslagi og hraða. En að kostnaðinum, ef við gefum okkur einfalt dæmi, þ.e við ökum 10.000 km á ári og hlöðum alltaf heima fyrir 14,15 kr, kWs og gefum okkur til einföldunar að við séum að fá að meðaltali 320 km drægni. Við greiðum fyrir fulla hleðslu 1000 kr. -. sem gerir 31.250 kr. - í árlegan kostnað. Þetta er gróft dæmi, en gefur okkur hugmynd. Það er mjög gaman að setja inn forsendur sínar og reikna samanburðinn á milli árskostnaðar bensínbíls og rafbíls með reiknivél Orkuseturs hér. Ef bensínbíllinn væri t.d að fara með 20.000 kr. - í kostnað á mánuði ín eldsneyti, 240.000 kr. - á ári, þá væri sparnaðurinn um 208.750 kr.- á ári, fyrir utan sparnað við smurningu og annað viðhald sem kemur til.

    • Ókeypis hleðsla - Svo er hægt að hlaða án kostnaðar á ýmsum almennings stöðum eins og í Kringlunni, IKEA, stöðvum á vegum Reykjarvíkurborgar o.s.frv.. Bæði vegna stuðnings við umhverfisvænar samgöngur og í tilfelli verslunarmiðstöðva / söluaðila að fá rafbílaeigendur í heimsókn. Það er hægt að skoða yfirlit yfir allar almenningsstöðvar inn á Plugshare.

    • Hleðslustöðvar með gjaldtöku - Í Plugshare appinu er hægt að skoða flestar stöðvar sem eru opnar almenningi og þar er hægt að sjá hvort það kosti að hlaða eða ekki (og hvort hraðhleðsla sé möguleg). Ef við tökum áfram Audi E-tron, 71 kWs rafhlöðu, Type 2 tengi (Evróputengi fyrir hæghleðslu) og við ætluðum að hæghlaða hann t.d á heðslustöð Orku Náttúrunnar fyrir utan Landspítalann þá er verðið þar fyrir hæghleðslu 2 kr. - á mínútu og hraðhleðslu 19 kr. - á mínútu. Ásamt því er kostnaðurinn 20 krónur fyrir hverja kílówattstund. Þannig ef við hæghlöðum hann í 60 mínútur, þá er tímagjaldið 120 kr. -. Ef við erum með hleðslugetu upp á 22 kW og hleðslustöðin skv. ON appinu er 22 kW, þá værum við skv. mælikvörðum EV Database að fá 22 kW á klukkustund, samtals 81 km fyrir 440 kr.-. Ef við myndum fullhlaða á slíkri stöð þá tæki það um 3.5 klukkustundir að komast í fulla hleðslu 71 kW. Það væri því 71 (kWs) *20 = 1.420 kr. - og 210 (mínútur) *2 = 410 kr. -. Samtals 1.820 kr. - að fullhlaða bílinn frá 0 - 71 kW á þessari stöð. Það munar því næstum tvölfalt í verði að geta hlaðið heima og á svo aftur á þessari stöð. Ef um hraðhleðslu væri að ræða, þá væri kostnaðurinn 19 kr. - en á styttri tíma. Sjaldnast er þó farið frá botni til topps í hleðslu og að gera það ítrekað er óæskilegt þar sem það hefur áhrif líftíma rafhlöðunnar. En til að gefa okkur hugmynd um kostnað þá reiknum við þetta svona. Hversu hratt við hlöðum bílinn fer svo einmitt eftir hleðslustöðinni hverju sinni, þ.e hversu stór hún er (t.d 3,7 kW, 7 kW, 22 kW eða 50 kW hraðheðsla), hámarks hleðslugetu rafbílsins (listi yfir hámarkshleðslu) og hvort hraðhleðsla sé möguleg á bílnum. Inn á vefsíðu EV Database er hægt að sjá ítarlegri lista yfir hleðslutíma eftir þessum forsendum eftir rafbílum. Fyrir upplýsingar um framboð á heimahleðslustöðvum er hér yfirlit yfir söluaðila hleðslustöðva.

  3. Hvað er bíllinn að nota mikið eða fara langt á því (drægni) ?

    • Við reiknuðum hér að ofan að við værum að borga um 507 kr. - fyrir fulla hleðslu í heimahúsi og 1.820 kr. - í hæghleðslu út í bæ ef við þurfum að greiða. Eins og hér að ofan þá er mismunandi hvað við náum góðri drægni út úr því, sem fer einmitt eftir akstursaðstæðum, veðurfari og aksturslagi t.d dekkjabúnaður, kuldi/hiti, upp, niður, á móti vind o.s.frv. Hér á Íslandi er oft talað um vetrar- og sumardrægni þar sem kalt og vindasamt veðurfar hefur áhrif á drægnina.

Kílówattstund per 100 km er svo mælieining á orkunotkun rafbíls, þ.e 21,6 kWs (71 kWs/328 km * 100 km) er meðaleyðsla ef við fáum 328 km drægni m.v 71 kWs rafhlöðu, alveg eins og við horfum í t.d 10 ltr á hundraði á bensínbíl. Sem bæði sveiflast til eftir aðstæðum. Eftir því sem við skiljum þetta betur og öðlumst meiri samanburð, reynslu og lærum að þekkja rafbílana betur þá fáum við betri tilfinningu fyrir þessum tölum.

Meðalverð á kílówattstund af rafmagni er breytilegt eftir gjaldskrá fyrirtækja, við vitum núna að kostar meira að hraðhlaða (DC) en hefbundinn hleðsla (AC). Sem hvort tveggja hefur áhrif á rekstrarkostnað rafbílsins. Það er gott að hafa hraðhleðslumöguleika t.d þegar verið er að keyra langar vegalengdir, ferðalög eða vinnuferðir t.d.

Til að átta sig á tímanum sem það tekur að hlaða þá er reiknidæmið svona

Tími = Rafhlöðustærð (kWs) / hleðslugetu (kW) * (staða rafhlöðu, State Of Charge í % - 1) = X klst og X mínútur.

Svona getum við greint nánar áhrifaþætti rekstrarkostnaðar á rafbílnum eftir því sem hann verður stærri hluti af daglegu lífi. Á sama tíma er gott að fylgjast með og bera saman raforkuverð / þjónustu orkusala (Íslensk Orkum. HS Orka, ON, Orkusalan o.s.frv.) eins og þegar við horfum í verðsamanburð olíufyrirtækjanna (Olís, N1, Costco o.s.frv.).

Fyrir ítarlegri upplýsingar um einstaka rafbíla er hægt að skoða EV Database, þar er líka hægt að sjá nýja og spennandi rafbíla sem eru væntanlegir í sölu á næstu mánuðum / árum.

Fyrir frekari upplýsingar / ráðgjöf um kaup á notuðum rafmagnsbíl

rafbilastodin@rafbilastodin.is